Fréttasíða Háteigs

Fréttir á föstudegi, 2. desember 2022

Þessi vika hefur verið annasöm og skemmtileg hjá okkur á Háteig. Krakkarnir eru búin að vera dugleg að vinna í jólagjöfum til ykkar. Við erum búin að baka smákökur sem gekk mjög vel hjá okkur. Og svo var þessi líka skemmtilegi jólaföndurdagur með foreldrum í gær.

Við minnum foreldra á að á mánudaginn standa yfir upptökur á sjónvarpsþætti svo bílaplanið og botnlanginn verða lokuð fram eftir degi.

Góða helgi og njótið myndanna á heimasíðunni: https://sway.office.com/uES3fex7beMmF98j?ref=Link og https://sway.office.com/jr4RVnskEomu9DOk?ref=Link

Kveðja, Sigga Ása

 

Fréttir á föstudegi, 25. nóvember 2022

Föstudagspistill hefur verið í fríi tvær vikur. Það væri gaman að vita hvort þið eruð að lesa hann og hvort þið viljið fá pistil vikulega eða sjaldnar…þið megið endilega senda mér tölvupóst eða svara á Völu.

En hjá okkur er alltaf nóg að gera og nú erum við byrjuð í jólastússinu. Við erum farin að föndra, syngja, skreyta og hafa gaman í tilefni af aðventunni sem byrjar um þessa helgi. Í síðustu viku gerðum við pappír í salnum og erum líka búin að föndra með pappamassa (smá leyndó). Á þriðjudaginn fór elsti árgangurinn í heimsókn í söng og dansstund í Grundaskóla ásamt öllum í árgangi 2017 í leikskólunum og 1.bekkingum úr báðum grunnskólunum. Krakkarnir okkar sungu þar uppá sviði nokkrar vísur um jólaköttinn og stóðu sig mjög vel. Við ætlum að setja leikfimina í smápásu en förum kannski í einn tíma í desember.

Hér er linkur á myndasíðuna: https://sway.office.com/r5Ha2UM1jeFFA3N8?ref=Link

Kveðja, Sigga Ása

 

Fréttir á föstudegi, 4. nóvember 2022

Við byrjuðum vikuna frekar hræðilega með hrekkjavökuþema – en krakkarnir höfðu gaman af og mættu í búningum og voru í miklu stuði. Við vorum með alstund í sal, ball og deildaflakk.

Við vorum með sköpunarviku og unnum ýmiskonar listaverk sem fara bráðlega uppá veggi hjá okkur. Krakkarnir hafa val um hvað þau vilja gera svo það eru ekki allir sem vinna eins verk. Áhuginn er mismikill en við hvetjum alla til að prófa og taka þátt í því sem er í boði.

Það voru foreldraviðtöl í vikunni fyrir þá sem vildu og ég minni á að alltaf er hægt að hafa samband við okkur ef þarf, til dæmis í gegnum Völu eða senda tölvupóst.

Hér er slóð á myndasíðu vikunnar:

https://sway.office.com/ZAdVPqA1jM0UI309?ref=Link

Kveðja, Sigga Ása

 

Fréttir á föstudegi, 28. október 2022

Það er búið að vera líf og fjör hjá okkur í vikunni. Brunaverðirnir okkar fóru um leikskólann og athuguðu hvort allt væri í lagi (sem það var!).

Síðasti sundtíminn var hjá þeim krökkum sem voru í sundi fyrir áramót, leiktími og mikið fjör.

Í Blæ stundum vikunnar vorum við m.a. að tala um hvernig við getum verið góðir vinir og sýnt umhyggju. Hvernig við getum sýnt hugrekki t.d. með því að hjálpa vinum okkar, smakka nýjan mat eða gera eitthvað sem við þurfum kjark til.

Við héldum uppá alþjóðlegan bangsadag á fimmtudaginn og vorum líka með kósýfata/náttfata dag, það var mjög notalegt. Bangsarnir fengu líka að fara með í leikfimitíma hjá eldri krökkunum.

Við erum búin að vera að undirbúa okkur fyrir hrekkjavökuna með ýmiskonar föndri, perla og lita og klippa og skreyta deildina. Vonandi verðið þið ekki hrædd þegar við mætið á mánudaginn.

Í dag var okkur svo boðið á morgunstund hjá Brekkubæjarskóla, það var mjög skemmtilegt og margir fengu knús frá foreldrum og systkinum.

Kveðja, Sigga Ása

 

Fréttir á föstudegi, 21. október 2022

Það var stærðfræðivika hjá okkur þessa viku. Við vorum mikið að æfa okkur í talnarununni og að telja hluti. Við tókum með okkur blað í gönguferð og töldum t.d. hve marga vörubíla, hunda, ketti og barnavagna við sáum. Einnig gerðum við ýmis verkefni á blaði, spiluðum og lékum okkur í leikjum sem tengjast stærðfræði.

Eldri hópurinn fór í leikfimi í íþróttahúsinu og var þá í öllum salnum, ásamt kökkunum í Garðaseli. Við fórum í Tarsan leikinn, sem er eltingaleikur með dýnum, köðlum og þrautum. Það var mikið fjör og gaman hjá okkur. Yngri hópurinn fór í leikfimi í salnum okkar hjá Valdísi.

Ella Þóra var nemi hjá Siggu á Háteig þessa viku. Hún er búin að vera að skoða leik barnanna og samskipti þeirra í leiknum. Það er alltaf gaman og gefandi að fá nema til okkar.

Vökudagar á Akranesi byrja í næstu viku. Við erum búin að hengja upp listaverk frá krökkunum á Háteig í biðstofu sjúkrahússins.

Góða helgi.

 

Fréttir á föstudegi, 14. október 2022

Við fengum góða heimsókn á mánudaginn þegar Jens Heiðar slökkviliðsstjóri og Sigurður Þór komu og spjölluðu við elstu krakkana á Háteig um eldvarnir. Krakkarnir fengu að skoða bílinn og fengu möppur sem þau fá heim með sér seinna. Krakkarnir taka þátt í að skoða eldvarnir í leikskólanum og líka heima.

Þessa vikuna var málörvunar vika hjá okkur. Við vorum m.a. að æfa okkur í að ríma, klappa samstöfur, skrifa nöfnin okkar og gera ýmis skemmtileg verkefni og fara í leiki tengd þessari vinnu, ásamt vinnu í stafaheftinu. Það voru hengd upp lubbabein í garðinum og krakkarnir fengu „bingó“ spjöld og áttu að merkja við þá stafi sem þau fundu, Lubbi fór auðvitað með í leitina. Við erum búin að vera að vinna með stafina A, M og B. Kíkið endilega á Lubba vegginn hjá okkur, sem er innst í fataherberginu.

Haustskóli Grundaskóla var í þessari viku og var í þrjá daga. Elín Ragna skemmti sér mjög vel og var dugleg að taka þátt í skólastarfinu.

Við enduðum þessa viku á bleikum degi. Deildin var skreytt og flestir mættu í einhverju bleiku í tilefni dagsins. Kíkið endilega á myndasíðuna okkar sem er á heimasíðu leikskólans:

https://sway.office.com/o1en0GFMoaMb47GC?ref=Link

Góða helgi.

Fréttir á föstudegi, 7. október 2022

Við vorum með sköpunarviku á Háteig þessa vikuna. Við vorum meðal annars að vinna í listaverkum sem verða sýnd á Vökudögum sem hefjast í lok október. Við vorum líka að teikna með lími og skreyta með pasta, mála myndir og vinna lauf-listaverk.

Við fórum í gönguferð þar sem við vorum að vinna með virka hlustun og tókum með okkur hljóðabingóspjald. Við vorum að leita eftir ýmsum hljóðum á leiðinni og merktum við á bingóinu þegar við heyrðum viðkomandi hljóð. Við stoppuðum, lokuðum augunum og hlustuðum. Ótrúlegt en satt, þá heyrir maður betur með lokuð augun!

Við lékum okkur með efnivið úr náttúrunni og spruttu margir skemmtilegir leikir út frá því, meðal annars afmælisveisla og skógarferð.

Í þessari viku fór árgangur 2017 í Blæ-stund þar sem við ræddum hvernig við getum sýnt umhyggju og hvernig við látum vita ef eitthvað er að eða okkur líður illa. Allir ætla að æfa sig í að láta vita og reyna að leysa vandamál sem upp koma og ef það gengur ekki, að tala við fullorðna. Við vorum líka með vinanudd. Það var lesin sagan um þegar Blær kom til Íslands og á meðan nudduðu krakkarnir bakið á hvert öðru með mismunandi hreyfingum, mjög notaleg stund.

Njótið helgarinnar og kíkið endilega á myndasíðu vikunnar

https://sway.office.com/QEzOOHqKy9FH8wrW?ref=Link

 

Fréttir á föstudegi, 30. september 2022

Það var líf og fjör á Háteig í vikunni. Við tókum þátt í hreyfiviku Evrópu og vorum með spretthlaup á Krókalóns-stígnum ásamt krökkunum á Miðteig, á eftir fengu allir verðlaunapening og hressingu úti í garði. Díana danskennari kom ásamt Höllu í heimsókn og var með dansleiki fyrir krakkana, mjög gaman og allir duglegir að taka þátt. Yngri hópurinn byrjaði líka í leikfimi í salnum hjá Valdísi okkar.

Í þessari viku var haustskóli í Brekkubæjarskóla fyrir þau börn sem fara í þann skóla næsta haust. Krakkarnir voru mjög dugleg að taka þátt í leik og starfi en skemmtilegast fannst þeim að fara í frímínútur og fá nesti.

Það var umferðavika hjá okkur þessa viku og lásum og hlustuðum á sögur tengdar umferðinni, gerðum verkefni og ræddum umferðareglur í samverum, sem við æfðum okkur svo í, í gönguferðum.

Við gróðursettum haustlauka í garðinum og hlökkum mikið til að sjá hvað kemur upp í vor.

Í dag var svo alstund í salnum og deildaflakk þar sem krakkarnir gátu valið á hvaða deild þau voru að leika sér. Að sjálfsögðu var svo afmæliskaka í hressingu fyrir alla sem eiga afmæli í september.

Munið að kíkja á myndasíðu Háteigs og skoða myndirnar með krökkunum ykkar. Góða helgi.

 

Fréttir á föstudegi, 23. september 2022

Í stærðfræði-vikunni vorum við mikið að vinna með formin. Á þriðjudaginn fórum við í gönguferð og skoðuðum formin í umhverfinu og tókum Lubba með okkur. Við unnum ýmis verkefni og fórum í spil þar sem formin voru skoðuð. Við gáfum einingakubbum mikið pláss í þessari viku, bæði í tíma og rúmi, því það þurfti ekki að taka niður byggingar í lok dags, bara í lok vikunnar – sem krökkunum fannst mjög skemmtilegt. Í dag var svo langþráður dótadagur og búið að vera mikið fjör hjá okkur. Skoðið endilega myndirnar á heimasíðunni með krökkunum ykkar. Góða helgi.